Frumtamningar
Vinna okkar með hesta hefur það að aðalmarkiði að traust og virðing ríki á báða vegu milli manns og hests. Við tamningar er það lykilatriði að styrkja sjálfstraust hestsins svo að hann þori, geti og vilji.
Við nýtum þekkingu úr námssálarfræði og atferlismótun við tamningarnar, því tamning hesta snýst að langmestu leyti um að móta hegðun þeirra og kenna þeim nýja hluti. Hestar eru í eðli sínu flóttadýr, og því þarf að styrkja sjálfstraustið hjá hrossinu. Sjálfstraust öðlast allir með því að skilja og geta framkvæmt það viðfangsefni sem verið er að fást við. Í byrjun eru frumtamningar því að miklu leyti kennsla og að koma á skilningi hjá hestinum fyrir því til hvers er ætlast af honum frekar en að um líkamlega erfiðar æfingar séu að ræða. Smátt og smátt þróast svo vinnan með hestinn meira út í líkamlega áreynslu til að gera hestinn tilbúinn til að bera knapa, og leiknari í að framkvæma það sem hann er beðinn um. Þá er frumtamningin að verða langt komin, og almenn þjálfun fer að taka við, en mörkin þarna á milli eru ekki alltaf alveg skýr.
Framfarir og árangur
Framfarir og árangur hestsins í tamningu fer eftir nokkrum atriðum, en fyrst og fremst því hvernig hann var undirbúinn, hvernig hann er skapi farinn og hversu lengi hann dvelur í tamningu. Í frumtamningunni er það markmið að hesturinn læri eftirfarandi atriði:
- Að láta ná sér
- Að teymast í hendi
- Að standa kyrr þegar farið er á bak og af baki
- Að bera hnakk og beisli
- Að standa bundinn
- Að hlaupa laus
- Að vera járnaður
- Að vera riðið úti á víðavangi á feti, brokki og stökki og gangskiptingar þar á milli
Önnur atriði sem oft eru kennd ef eigandi vill og þá í samráði við hann:
- Að teymast á hesti
- Að vera hringteymdur með einum taum
- Aðrar sérstakar óskir eiganda
Vinnubrögðin
Hestar eru fljótir að læra og yfirleitt gengur tamningin vel. Öll vinna með hestinn byrjar á því að við gerum okkur grein fyrir skapferli hans. Helstu atriði sem þar skipta máli eru hversu ör - rólegur hesturinn er, og svo hversu ráðandi þáttur kjarkleysi og sú þörf fyrir að verja sig og/eða flýja hræðsluvekjandi aðstæður er.
Það sem helst setur hömlur á námshraðann er sú staðreynd að hesturinn er í eðli sínu flóttadýr, og um leið og sjálftraustið býður hnekki, þá er hans fyrsta hugsun að verja sig eða flýja af hólmi. Þess vegna er það okkar mottó að styrkja sjálfstraustið, því þá gengur námið vel.
Sjálfstraust eykst við notkun. Þetta er einföld, en góð setning og á vel við. Sjálfstraust kemur frá því að kunna til verka. Þess vegna byrjar hesturinn sína tamningu á að læra nokkrar mjög einfaldar æfingar sem svo er alltaf hægt að grípa til þegar við þurfum á því að halda að hann sé öruggur með sig. Í byrjun tamningar er þetta yfirleitt eitthvað eins einfalt og að hlaupa laus eftir sporaslóð inni í reiðhöll, eða að læra að gefa eftir taumtaki í aðhaldi. Til að geta valið heppilegar æfingar fyrir hvern einstakling er mikilvægt að byrja eins snemma og kostur er að meta skapgerðina. Háttalag hestsins gefur fljótt uppi hvort að hesturinn er ör eða rólegur. Ör hestur þarf að gera æfingar þar sem hann er svolítið að taka á og vinna, eins og t.d. að hlaupa laus, meðan að oft henta aðrar æfingar rólegu hestunum, t.d. vinna í hendi.
Um leið og hægt er að byrja að vinna, þá eykst sjálfstraustið, og þá er hægt að bæta í erfiðleikastuðulinn á æfingunum sem hesturinn lærir svo framarlega sem það er gert hægt og hægt.
Námið byrjar
Þegar sjálfstraustið er orðið það gott að hesturinn er óhræddur við manninn, þá er auðvelt að móta hegðun hestsins og kenna honum nýja með því að nota mismundandi afleiðingar.
Við endurþjálfun hrossa eða hrossa, sem þarf að laga, er leitast við að finna rót vandans og laga hann. Til að geta lagað vandann er mikilvægt að finna út hvort hann stafar af ótta hests, virðingarleysi hests gagnvart manninum, líkamlegum ástæðum, af því hestur kann eða skilur ekki það sem hann er beðinn að gera eða blanda af fleiri en einni ástæðu. Þar á eftir er unnið að því að koma hestinum á “rétta” braut og síðan þjáflun á venjubundinn hátt.