Tamning og þjálfun
Úrvalshestar bjóða upp á frumtamningar og áframhaldandi þjálfun hrossa. Magnús Lárusson hefur yfirumsjón með allri hrossavinnu, en til aðstoðar eru verknemar. Magnús hefur áralanga reynslu og menntun í tamningum og þjálfun. Við vinnum með öll hross 5 sinnum í viku, mánudag til föstudags. Á milli þess sem unnið er með hrossin, fá þau mikið að vera úti við nokkur saman í hópum þegar veður leyfir.
Hér fyrir neðan eru tenglar inn á síður þar sem finna má upplýsingar um aðferðafræði og nálgun okkar við tamningar og þjálfun. Að auki bjóðum við upp á þolþjálfun hrossa, sem fer þannig fram að hrossið hleypur í hóp með nokkrum öðrum hrossum sem hafa svipaða líkamlega getu. Til þessara hlaupa erum við með hlaupahring sem er góður kílómetri að lengd. Hrossin eru svo rekin nokkra hringi daglega allt eftir þoli og styrk. Þetta er frábær aðferð til að koma hrossum í form þegar eiganda gefst ekki tími til þess sjálfur t.d. fyrir ferðalög, smalamennskur eða hvað sem er annað.
Hér eru nokkur hross í rekstri
Frumtamningar
Undir orðið frumtamning fellur sú vinna þegar hrossi er kennt að verða reiðhestur. Þarna er átt við að hrossið sé undir stjórn á feti, brokki og stökki með knapa á baki. Undir þessum tengli má finna greinargóðar lýsingar á því hvað felst í frumtamninga-ferlinu í heild.
Þjálfun
Þjálfun hestsins á gangtegundum byrjar þegar frumtamningu er lokið. Þá er byrjað að kenna hestinum rétta líkamsbeitingu, og farið í gangsetningu ásamt því að koma hestinum í sem best líkamlegt form. Nánar um þjálfun undir þessum tengli.
Unghrossamat
Hrossin sem koma í þessa vinnu eru á aldrinum frá því þau eru tekin frá móður sinni og þar til þau eru þriggja vetra. Vinnan skiptist í tvennt, annars vegar að kenna hrossunum helstu hestasiði, og hins vegar að meta hrossið fyrir byggingu, hreyfingar og skapgerð. Eigandi fær að loknu matinu skriflega skýrslu um útkomuna. Nánar um unghrossamat hér.
Verð á tamningu og þjálfun
Verð á tamningu og þjálfun eru eftirfarandi:
- Tamning 1 mánuður geldingur/hryssa 84.000 án vsk
- Tamning 1 mánuður stóðhestur 84.000 án vsk
- Hlaupagjald 1 mánuður geldingur/hryssa 54.000 án vsk
- Járning með skeifum 12.000 án vsk
Staldri hross skemur við en einn mánuð er verðið reiknað hlutfallslega.
Öll hross sem koma þurfa að vera örmerkt, en ef þau eru það ekki þá getum við séð um það. Örmerking kostar 6.500 án vsk.