Anni og Elina, tveir nemar af mörgum sem hafa komið frá Svíþjóð

Úrvalshestar bjóða upp á stigskipt starfsnám í hestafræðum.  Námið er að mestu verklegt og byggir á því að nemendur fá kennslu í að vinna með hross, og þar á eftir tækifæri til að æfa vinnubrögðin þar til þau eru orðin lærð.  Námið fer fram í formi fyrirlestra, sýnikennslu, einkakennslu og í hópkennslu.  Ávallt eru 4 - 6 starfsnemar við nám í einu í Holtsmúla, og hver og einn fær kennslu við sitt hæfi. 

Náminu er skipt niður í stig og tekur nemandinn próf þegar námsefni hvers stigs er lokið.  Þegar verknemi nær prófinu fær hann skírteini þar um útgefið af Úrvalshestum.

Um námsefni hvers stigs má lesa í Námsvísir Úrvalshesta, en jafnhliða er kennt um reiðmennsku, tamningar og umhirðu hrossa í hverju stigi.

Námsvísir Úrvalshesta

Samningur

Í byrjun náms er gerður samningur milli Úrvalshesta og nemandans.  Í samningnum kemur fram hvað hvor samningsaðili lætur af hendi og fær frá hinum, sem og tímalengd námsins. 

Nemendur sem ætla sér að vera 6 mánuði eða lengur hafa forgang fram yfir aðra umsækjendur.  Verknemar geta valið um tvær leiðir þegar kemur að samningsmálum.  

Leið 1

Þegar nemandinn hefur klárað 6 mánuði þá eignast hann hest á tamningaraldri sem hann velur úr hópi nokkurra hrossa í samráði við kennara staðarins, og þetta er þá hross sem nemandinn hefur tamið að miklu leyti sjálfur og þekkir vel.  Eigendaskipti á hestinum eru ekki að neinu leyti háð framvindu námsins hjá verknemanum hvað varðar prófatöku, einungis því að hann stundi sitt nám í a.m.k. sex mánuði.

Leið 2

Nemandinn fær ákveðna peningaupphæð á mánuði fyrir starfsframlag sitt, sem hækkar eftir því sem nemandinn lýkur fleiri stigum.  Allir nemendur fá húsnæði, og kennslu skv. námsvísi, og hádegismat á virkum dögum.  Auk þess fá nemendur sem ljúka stigsprófum peningaupphæð skv. neðangreindu:

Fram að lokum 1. stigs:  60.000 á mánuði

Að loknu 1. stigi:  90.000 á mánuði

Að loknu 2. stigi:  120.000 á mánuði

Að þriðja stigi loknu er gerður einstaklingsbundinn samningur um framhald.

Samningur


Anni Olsson er sú eina sem hefur lokið fjórða stigi. Myndin sýnir hana fagna þeim tímamótum með hestunum sem hún notaði í prófinu.

Hver starsfnemi fær kost á því að taka próf úr því stigi sem hann er að vinna í um leið og hann er tilbúinn til þess.  Þannig er tímalengd hvers stigs ekki fyrirfram ákveðin, heldur er framvinda námsins og prófataka háð getu nemandans hverju sinni.  Þannig geta vanir hestamenn unnið sig fljótt í gegnum stigin meðan að minna vanir geta tekið þann tíma sem þeir þurfa til að ná tiltekinni þekkingu og færni.

Við bjóðum alla velkomna til að sækja um nám hjá Úrvalshestum í Holtsmúla við allt það sem viðkemur hrossum, reiðmennsku, tamningum, og hrossarækt.  Við svörum öllum umsóknum.

Umsókn um verknám hjá Úrvalshestum

Aðstaða nemenda

Starfsnemar búa í húsi sem við köllum Þórukot.  Þórukot telur þrjú svefnherbergi, eldhús og stofu og fer þar vel um verknemana.  Þarna er góð aðstaða til að elda og nemendur búa ýmist í sér herbergi eða deila herbergi með einum félaga.  Í Þórukoti er þvottavél og starfsnemar hafa aðgang að þráðlausu netsambandi.

Nemendum er reglulega séð fyrir ferðum í lágvöruverslun til að kaupa mat.  Nauðsynlegt er að starfsnemar komi með hlý föt, reiðskó með hæl og reiðhjálm, en við mælum að auki með eftirfarandi hlífðarfatnaði:

  • Reiðbuxur
  • Hlýir vettlingar, helst úr leðri eða líku efni
  • Kuldagalli
  • Ullarsokkar
  • Húfa sem má setja undir reiðhjálm
  • Föðurland
  • Hlý úlpa og peysur
Aðstaða nemenda
Þórukot. Vistarverur starfsnema meðan þeir eru við nám í Holtsmúla.