Hrossarækt Úrvalshesta
Á hverju ári ræktum við u.þ.b. 10 - 15 folöld og höldum hryssunum okkar undir bestu stóðhesta landsins hverju sinni. Við eigum eitthvað á annan tug fyrstu verðlauna hryssa, en auk þess höldum við oft bestu þriggja vetra hryssunum okkar séu þær á annað borð komnar með líkamlegan þroska til þess.
Við höfum legið mikið yfir okkar ræktunarmarkmiði og vitum vel hvað við viljum rækta. Má lesa um það nákvæma lýsingu hér neðar. Við erum ekki föst í ákveðnum ættum og er sama hvaðan góð hross koma. Segja má að mörg hrossanna okkar eigi þó ættir sínar að rekja til glæsihryssunnar Kríu frá Lækjamóti, en hana verslaði Magnús þegar hún var fimm vetra gömul. Kría þessi var fædd 1980 og fór í fyrstu verðlaun sem klárhryssa sjö vetra gömul, en það var ekki mjög algengt að klárhrossum tækist á þessum tímum. Við höfum fengið mörg úrvalsgóð hross undan og út af henni Kríu og gætir áhrifa hennar mikið ennþá í okkar stóði.
Útlit:
Við viljum rækta stór og myndarleg hross með mikið fax. Við leggjum mesta áherslu á hálsinn, að hann sé hátt settur á háum herðum og að hann sé þunnur, grunnur og klipinn í kverk. Langur háls er einnig mikil prýði. Samræmið er næst í röðinni þar sem mestu máli skiptir sem mest fótahæð. Einnig þykir okkur mikilvægt að hrossin séu jafnbola, sívalvaxin og hlutfallarétt. Bakið á að vera með lægsta punkt aftarlega, breitt og vöðvað og lendin löng, jöfn og öflug. Fjölbreytni í litum sækjumst við eftir komi hún ekki niður á öðrum eiginleikum.
Gangtegundir:
Gangtegundir skulu vera rúmar og hrossin hreingeng. Brokk og stökk á að vera svifmikið. Ekki skiptir máli hvort að gangtegundir séu fjórar eða fimm. Við leggjum áherslu á háan fótaburð og sem mesta skrefstærð ásamt léttleika og liðleika í hreyfingum.
Geðslag:
Við viljum að hrossin séu nálægt miðju á skapgerðarkortinu, þó mega þau vera heldur kjarkaðri og í lagi að þau séu örlítið ör.
Ræktunarhryssur Úrvalshesta
Hryssustofninn kemur víða að, og ættirnar eru héðan og þaðan. Það sem hryssurnar eiga hins vegar sameiginlegt er að búa yfir þeim eiginleikum í ríkum mæli sem við höfum sett okkur í ræktunarmarkmiðum okkar. Allar hryssurnar eru tamdar og flestar sýndar í 1v, en sumar hafa ekki náð þeim árangri, þó að okkur hafi einhverra hluta vegna þótt ástæða til að rækta undan þeim. Til dæmis eru nokkrar hryssur aðeins sýndar fyrir byggingu vegna meiðsla sem gerðu það að verkum að hæfileikadómur var ekki möguleiki, eða önnur sambærileg ástæða er fyrir því að hryssan er ekki sýnd.
Stóðhestar úr ræktun Úrvalshesta
Úrvalshestar hafa ræktað nokkar framúrskarandi stóðhesta sem hafa annað hvort með því að hljóta góðan kynbótadóm eða gert góða hluti í keppni vakið athygli.
Smellið hér til að skoða verðlaunaða stóðhesta úr ræktun Úrvalshesta
Tryppin
Við höfum haldið vel utan um öll fædd folöld og hér má sjá hvernig árgangarnir hafa litið út í heild. Úrvalshestar leggja áherslu á að hafa til sölu hágæða unghross til kynbóta, bæði stóðhesta og hryssur. Það eru því mörg af þessum tryppum sem hafa selst erlendis áður en tamningaraldri er náð og verið dæmd þar.