Að gera betur - ný viðmið
5. september, 2017
Hollendingum tókst að gera betur en gert hefur verið í skipulagningu og umgjörð HM 2017 sem haldið var í þar í landi í byrjun ágústmánaðar. Þessi skoðun er ríkjandi meðal reynslumikilla mótsgesta. Ég hef fá viðmið af mótum erlendis frá en mörg frá lands- og fjórðungsmótum hér heima. Sem áhorfandi á aðalleikvanginum þá var ég í skjóli fyrir sól, vindi og regni, sem er mikill kostur þegar lengi er setið við. Það var einnig stutt í og auðvelt að ná sér í lystuga næringu á viðráðanlegu verði. Og einna mest um vert er að geta skilað afgangnum án langra biðraða, haldandi niðri í sér andanum og horfa upp í loft vegna lyktar- og sjónmengunar þegar inn á prívatið var loksins komið. Ég er að vona að einhverjir skipuleggjendur landsmóta og áhrifamenn um val á landsmótsstöðum framtíðar hafi verið á HM 2017 í Hollandi og móti sín framtíðarstörf í þágu hestamennskunnar á hollenskan máta.
Tvennt annað stóð upp úr á HM 2017 þar sem ég sat. Jolly Shrenk heillaði mig í forkeppni T2 með sinni reiðmennsku á honum Rauð. Þetta var svo auðvelt og þau bæði svo kát og keik. Ég hef nú nýtt viðmið hvað varðar T2. Takk fyrir það Jolly.
Magnús Skúlason setti nýtt heillandi viðmið í gæðingaskeiði fyrir mig á Mósu. Hún var fljót og gerði allt tæknilega rétt. Þetta var þeim tveimur svo auðvelt. Sýningin var létt og kraftmikil og síðast en ekki síst – skeiðið var svo fallegt. Takk fyrir það Magnús Skúlason.
Með kveðju, Magnús Lárusson M. Ag.