Vilji

8. apríl, 2008

“Vilji er allt sem þarf.” sagði genginn stjórnmálamaður á síðust öld.  Hann var að herða okkur samlanda sína upp og fá þá til að hætta að vola um slæmt ástand í þjóðfélgasmálum.  Fá þá til að bretta upp ermarnar og taka til hendinni við að breyta ástandinu. Hann vissi að vilji er andlegt ástand sem þarf að búa til og viðhalda.

Þegar ég er spurður hvað sé viljugur hestur þá segi ég gjarnan að viljugur hestur er hestur sem gerir það sem hann er beðinn um, þegar hann er beðinn og á þann hátt sem hann er beðinn, og eins lengi og hann er ekki beðinn um annað.  Mér finnst skipta máli að vilji hests beinist alltaf að mínum duttlungum og aldrei að hans.  Þess vegna á hestur á að vera viljugur að standa kyrr þegar ég fer á bak og af baki, og hvenær sem ég vil.  Hann á líka að vera viljugur að fara frá hesthúsi eins og að því.  Hann á að vera viljugur að fara á þeim hraða sem ég kýs sama hvert ég vil fara.  Hann á líka að halda hverri gangtegund þar til ég bið hann um að aðra. 

Vilja í hest er búinn til með tamningu og þjálfun.  Það þarf að kenna hesti að vinna alveg eins og börnum okkar.  Það þarf að kenna þeim að hafa tilgang með því sem gert er.  Þegar gengið er til verks með tilgangi þá er kominn vilji.  Þegar tilgang vantar þá dratthalast viðkomandi og enginn sér hvað er verið að gera eða hvort eigi að fara að gera eitthvað.  Þetta tilgangslausa hugarástand er í daglegu tali kallað leti.

Andleg spenna í hesti er stundum kallað vilji.  Andleg spenna í hesti veldur því að hann vill ekki standa kyrr eða fara hægt.  Andleg spenna í hesti veldur því að hann vill fremur fara í eina átt en aðra.  Andleg spenna í hesti geri hann stífan í skrokknum og býr þannig til líkamlega spennu vegna þess að hann beitir skrokknum vitlaust.  Þegar andleg spenna í hesti fer þá er hestur latur þar til hann hefur lært að vinna með tilgangi.  Ef ýtt er of mikið eða of lengi í einu við námið þá er hætt við að andlega spennan komi aftur.

Er þinn hestur viljugur?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni situr Magnús Ljóma frá Kjarri, mjög viljugan hest.  Ljómi er svo viljugur að hann nennir líka að standa kyrr sé hann beðinn um það!
Vilji