Stórir og litlir stafir

25. febrúar, 2013

 

„Er þessi hestur lítið taminn?“ spurði meistarinn mig þar sem ég sat á mínum fáki eftir að hafa riðið nokkrar hliðargangsæfingar fyrir framan hann og beið eftir athugasemdum.  „Nei, nei, hann er mikið taminn“ sagði ég rogginn og beið eftir jákvæðri gagnrýni sem mér fannst að ég hlyti að fá því hesturinn krossaði svo vel að aftan í æfingunum.

„Þá áttu ekki að nota svona stóra stafi“ sagði meistarinn og ég botnaði ekki neitt í neinu. „Það er nauðsynlegt að nota áberandi ábendingar, sem ég kalla stóra stafi, á lítið tömum hesti meðan hann er að læra það sem hann þarf að læra. Eftir því sem hann verður færari í því sem hann gerir þá ættum við nota minni og minni ábendingar og að lokum eiga þær ekki að sjást.  Ef við minnkum ekki ábendingarnar í takt við aukna færni hest þá hættir honum að fara fram.“sagði fyrirmyndin mér til útskýringar. „Svo er það heldur ekki til fagmannlegt fyrir atvinnumann að auglýsa reiðmennskuna sína  á þessan hátt.“bætti hann við svona eins og hann væri að tala við sjálfan sig en ég skildi sneiðina.

„Svo er það hitt atriðið sem veldur því að þessum hesti hefur ekki farið fram undanfarið og við þurfum að tala um Mr. Larusson.  Hesturinn er hvorki með burð í baki né í afturpartinum því þó hann krossi vel að aftan í æfingum hjá þér þá fer ytri fóturinn út til hliðar en ekki fram og undir hestinn.  Hann er ennþá að draga sig áfram en ekki að spyrna. Þarf ég að segja meira, Mr Larusson“  og þannig endaði minn maður ræðuna og bauð mér að andmæla sem mér fannst best fyrir mig að hafna.

Þú lesari, hér er tvennt til umhugsunar fyrir þig. Ert þú auglýsingaglaður knapi á tömdum hesti? Spyrnir hesturinn þinn sér áfram?


Á myndinni er allt annað par í læri hjá meistaranum en Magnús Lárusson með sína auglýsingareiðmennsku.  Hér sýnir Peter DeCosemo, það er meistarinn sjálfur, hvernig Á að auglýsa:  Á fatnaði !

 

Stórir og litlir stafir