Sjálfsöryggi

4. maí, 2009

Stefnt er að því í frumtamning hests að temjari gerist leiðtogi hans. Leiðtogahlutverki er náð þegar hestur treystir og virðir temjara sinn. Traust sýnir hestur m.a. með því að hann leyfir temjara sínum að ná sér og strjúka sér hvar sem er um skrokkinn. Hestur í frumtamningu sýnir temjara sínum virðingu helst með því að víkja, án ótta, frá temjaranum þegar hann er beðinn.  Aðferðir til að ná leiðtogaáhrifunum við frumtamningar eru ótal margar, sjálfsagt eins margar og temjararnir eru margir. Aðferðirnar eru þó flestar með þeim annmörkum háðar að þær ná settu marki seint og um síðir ef þær nást.
 
Auk þess þarf í frumtamningu hests að kenna honum þau atriði sem nauðsynleg eru svo hann geti sinnt sínu framtíðarhluverki af öryggi. Forsendan fyrir því að kennslan takist bæði hratt og vel er að leiðtogaáhrifunum hafi verið náð og hestur sé minntur á þau í byrjun hvers tamninga- og reiðtíma.  Það sem kennt er þarf að æfa og æfa það oft að hestur sýni öryggi í því sem æft er.  Hér reynir á að temjari sé sjálfum sér samkvæmur og sé nákvæmur í sínum vinnubrögðum.  Á þann hátt byggist upp örugg hegðun hjá hesti og sjálfsöryggi hans byrjar að myndast. Sjálfsöryggi hests er merki um það að hestur veit að hann kann og getur. Sjálfsöruggur hestur finnur til sín.  Það bæði sést og finnst.

Er þinn hestur sjálfsöruggur?

Með kveðju
Magnús Lárusson
www.urvalshestar.is
Sjálfsöryggi