Óskýr framtíðarsýn

5. janúar, 2015

Markátakandi menn í íslenskri hrossarækt hafa stigið fram hver á fætur öðrum í fjölmiðlum okkar hestamanna eftir hamfarir haustsins og sagt hvernig staðið skuli að hlutunum varðandi landsmót framtíðarinnar.  Einn sagði að það þyrfti að leggja höfuðáherslu á að sameina hestamenn og margir hafa fylgt í kjölfarið og samsinnt því.  Annar sagði að nú þyrftu menn að ganga í takt og margir hafa fylgt í kjölfarið og samsinnt því. Og núna í desember þá sagði yfirmaður okkar allra, ráðherra landbúnaðarmála, að mestu máli skipti að halda friðinn varðandi þetta mál og margir hafa samsinnt því.  Mér sýnist að þetta sé ekkert nýtt hjá okkar helstu markátakandi mönnum í íslenskri hrossarækt, og þetta sé nákvæmlega það sem við hestamenn höfum verið að gera.  Við höfum gengið sameinaðir í takt, reyndar oftast tvístígandi í taktgöngunni, og forðast alla framtíðarumræðu um tilgang landsmóta og hvernig við viljum hafa þau af ótta við að ýfa hár.  Þannig heldur sagan endalausa áfram sbr. síðasta pistil minn.  Við höfum barist á  banaspjótum við að velja stað fyrir landsmót hverju sinni og reynt síðan að laga atburðinn að staðnum með ærnum kostnaði sem nýtist venjulega bara einu sinni.  Með þessu áframhaldi þá blæðir okkur einfaldlega út vegna óskýrrar framtíðarsýnar í besta falli – oft finnst mér framtíðarsýn okkar hestamanna vera engin – það er nefnilega auðveldast að tvístíga í takt og breyta þannig engu.

Magnús Lárusson M.Ag.

Myndin heitir:  Brokkað í takt

Óskýr framtíðarsýn