Ósætti

9. febrúar, 2009

“Hefur þú rifist við einhvern og þið skilið ósáttir” spurði minn reiðmeistari.  Við stóðum við hest sem hann var nýbúinn að fá í þjálfun.  Eigandi hestsins hafði m.a. lýst hestinum sem frekum, stífum í taumum, stirðum til hliða og alltaf að flýta sér og eigandinn vildi fá það lagað.  “Jú, mig rekur minni til þess að svo hafi gerst” svaraði ég spurningunni hugsi og hikandi.

“Hvernig leið þér þegar þið hittust næst eftir ósættið” spurði minn maður. “Ekki vel ef ég man rétt” svaraði ég ófús að svara.  “Þú mannst það örugglega eins vel og þú stendur hér hjá mér. En skipti máli hve langur tími í klukkustundum eða árum leið á milli þess að ósættið varð og þið hittust aftur” hélt hann áfram við að þjarma að mér.  “Nei, það skipti ekki máli” sagði ég í uppgjöf.

“Það sama á við um hesta.  Ef hestur er ósáttur við knapa í lok reiðtíma þá kemur það fram í byrjun á þeim næsta.  Hesturinn man ósættið sama af hvaða rótum það er runnið og sýnir það með hátterni sínu.  Ef ósættið endurtekur sig í sífellu í lok reiðtímanna þá hleðst hratt upp mikil spenna eins og hefur gerst hjá þessum hesti.  Þótt hann fái frí í langan tíma þá hverfur spennan ekki, annarra meðala er þörf til að eyða spennunni” lauk meistari minn máli sínu.

 “En hvernig getur maður verið viss um að hestur er ósáttur í lok reiðtíma ef ósættið er mjög lítið?” spurði ég forvitinn. “Oft finnst ósætti hestsins ekki fyrr en í byrjun næsta reiðtíma.  Hins vegar finn ég það á sjálfum mér að hestur er ósáttur ef ég er heiðarlegur við sjálfan mig.  Reynslan hefur kennt mér að ef ég er ósáttur þá er mjög líklegt að hesturinn sé það líka. Ég þarf þá í næstu reiðtímum að gera minni kröfur til hans svo áhrif fyrrgreinds ósættis eyðist.” endaði samtalið millum okkar.

“Ert þú og þinn hestur alltaf sáttir hvor við annan?”


Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni eru vinirnir (frá vinstri) Páskalilja, Edda Margrét og Elja
Ósætti