Óheppileg tímasetning og stuttur fyrirvari

10. mars, 2008

Hestaíþróttadómarar hafa verið boðaðir á tveggja daga samræminganámskeið í ár, annað í byrjun apríl og hitt síðar í mánuðinum.  Aðeins þeir, sem mæta á annað hvort námskeiðið, eru löglegir dómarar og mega dæma á hestaíþróttamótum árins 2008.  Svo kveður í auglýsingu frá fræðslunefnd hestaíþróttadómara.  

Samræminganámskeið fyrir hestaíþróttadómara hefur verið árlegur viðburður í mörg ár.  Tilgangurinn með þeim er að undirbúa dómara fyrir dómstörf sumarsins. Þetta hefur verið gert með því að dómarar dæma nokkur hross saman og ræða síðan saman um niðurstöður dómanna í tilraun til að eyða mun, sem alltaf er og verður, á milli þeirra.  Jafnframt er farið yfir regluverkið, ef nýjar reglur hafa skotið upp kollinum síðan síðast og ef gamlar reglur eru grunaðar um að vera túlkaðar á mismunandi hátt.  Fyrirlestrar um margvísleg efni tengd hestamennsku og dómstörfum hafa verið haldnir til að viðhalda og auka þekkingu dómara.  Samræmingarnámskeiðin hafa tekið eitt langt kvöld hið skemmsta upp í einn dag.

Tímasetning þessa tveggja daga samræminganámskeiðs er afar óheppileg vegna þess að dómstörfin eru þegar byrjuð, þau byrjuðu í janúar.  Keppnistímabilið í hestaíþróttum er orðið mun lengra en var og nær nú orðið frá janúar til loka september með hápunkti í apríl, maí og júní. 

Tímasetning fyrir þetta tveggja daga samræmingarnámskeið er afar óheppileg því stór hluti hestamanna er upptekinn á þessum háannatíma við að dæma, kenna, halda námskeið, vera á námskeiðum, keppa, og sýna svo nokkur dæmi séu nefnd.  Tveir dagar í námskeið á þessum tíma eru sérlega dýrir dagar þar sem auðveldlega er hægt að koma þeim fyrir í annan tíma.

Tímasetning fyrir þetta tveggja daga samræmingarnámskeið er afar óheppilegt hvort sem tvöföldun tímans á að fara í að minnka mun á milli dómara, sem aldrei er hægt eyða alveg, eða mennta dómarana til að dæma öðruvísi en áður.  Ef á að fara í stór aðgerðir varðandi breyttar áherslur í dómstörfum þá þarf lengri tíma en tvo daga til að þjálfa upp gamla dómara svo þeir fari að dæma á annan hátt en þeir hafa áður gert.  Bæði þarf að kynna nýjar hugmyndir og æfa þær svo lengi að breytingin á dómunum verði varanleg ef ekki þá er best að hafa óbreytt ástand.  

Fyrirvarinn á svo löngu samræmingarnámskeiði er of stuttur.  Margir í dómarastétt verða að skipuleggja sig með meiri fyrirvara en gefinn er hér, bæði varðandi vinnu og fjöskyldu.  Með þessum stutta fyrirvara eru dómarar settir upp við vegg.  Þeir þurfa að velja á milli þess að missa af því að geta dæmt eða ganga á bak orða sinna við fjölskyldu  og viðskiptavini.

Námskeið af þessu tagi ætti því að finna stað fyrir utan keppnistímabilið. Ígrunda það meir hvað á að gera og hvers vegna en gert hefur verið.  Kynna síðan með meiri fyrirvara.

Þessi gjörningur fær gula spjaldið frá mér.  Að fá gula spjaldið merkir að viðkomandi fær viðvörum að svona gerir maður ekki!

Ætlar þú sem dómari að gefa HIDI gula spjaldið?  Ef þú gerir það ekki þá ert þú að samþykkja þennan gjörning, sem er m.a. tilkynntur með of skömmum fyrirvara og tímasetning er afar óheppileg.  Láttu HIDI vita þína afstöðu.

Með kveðju,
Magnús Lárusson
Óheppileg tímasetning og stuttur fyrirvari