04.11.2007 | Pistlar

Líkamleg þjálfun I - Þol

Áramót eru fyrir marga tími heitstrenginga og fagurra loforða um bætt líferni, betra útlit og þar af leiðandi betri tíma.  Við erum nefnilega þá oftast orðin leið á okkur sjálfum því við höfum þá venjulega étið of mikið og hreyft okkur of lítið í langan tíma og erum ekki í æfingu í að gera neitt annað.  Þannig er hesturinn okkar oftast einnig þegar hann er tekinn úr haustbeitinni til að takast á við þjálfun sem á að gera okkur tvo að knapa ársins, vinna landsmót í þessum eða hinum flokknum, fara þvert yfir landið á sama tíma og Brúnn hans Árna Odds eða bera mig slysalaust um hesthúsahverfið mitt.   Þol, styrkur og liðleiki eru helstu þættir líkamlegrar þjálfunar sem verða að vera í lagi svo draumar okkar um fyrrnefndan hestlegan árangur náist.  Þol hesta verður aðalumræðuefni þessa pistils og næsta.

Það þarf orku til að framkvæma allar okkar athafnir sem og hestlegar athafnir, meiri segja að sofa.  Næringarefni og súrefni eru hér í lykilhlutverki því þau skapa orkuna sem til þarf með því sem kallast bruni eða loftháð öndun (bruni með súrefni).  Því erfiðara sem athæfið er líkamlega þeim mun meiri orku þarf til.  Svo lengi sem nægt aðgengi er að báðum þessum grunnþáttum til orkumyndunar þá getur líkaminn haldið áfram með athæfið.  

Þegar súrefnið verður ónóg vegna vaxandi erfiðis, þ.e. krafan um orku er meiri en súrefnið eitt getur framleitt þá er skipt yfir í uppbótarkerfi til orkumyndunar eða loftfirrða öndun (öndun / bruni án súrefnis). Þetta uppbótarkerfi hefur tvo fylgifiska.  Sá fyrri er sá að mjólkursýra safnast upp í vöðvunum og súrinn veldur því að vöðvinn þreytist mjög hratt og heili þess þreytta segir að stoppa skuli erfiðið og hann ræður venjulega.  Að puðinu loknu þarf að losna við umframmagn mjólkursýru en það gerir líkaminn með því að anda tíðar eða meira en nýja og létta athæfið gefur eitt sér tilefni til.  Hann hefur ekki lokið við að borga þessa súrefnisskuld fyrr en hann hefur kastað mæðinni og hjarsláttur hefur náð hvíldarpúls á ný.  Seinni fylgikvillinn er sá að snerpuvöðvar grípa inn í til aðstoða við athæfið en þá er ekki ráðlegt að þjálfa fyrr en þolið hefur aukist verulega og þá oftast vegna hættu á álagsmeiðslum og myndunar á andlegri spennu, s.s. kvíða. 

Vendipunkturinn þar sem loftháð öndun endar og loftfirrð öndun tekur við er stundum kallað loftfirrði þröskuldurinn þegar þýtt er úr enskum texta.  Þolþjálfun byggist á því að hækka loftfirrða þröskuldinn og erlendar rannsóknir sýna með hesta á Thoroughbred kyni að það tekur 8 til 11 mánuði að hámarka þol þeirra.  Þeir eru í þolþjálfun í 6 sinnum í viku og oft meira en 1 klst í einu og gert á þann þátt að erfiðleiki hlaups hið mesta er í kringum þröskuldsmörkin.  Hversu lengi tekur að hámarka þol íslensk hests veit enginn því rannsóknir þar að lútandi eru á byrjunarstigi og hafa verið lengi því ekkert hefur gerst á þessum vettvangi síðastliðinn 10 ár.

Erlendar rannsóknir sýna að hjartsláttur sé áreiðanlegasti mælikvarðinn til að mæla eða meta þol.  Hjarslátt er hægt að finna með ýmsu móti, s.s. að leggja fingur á slagæð viðkomandi hests og telja slög á tímaeingingu eða að hlusta á hjartslátt með hlustunarpípu og telja slög á tímaeiningu eða fá sér sérstaka hjartsláttarmæla sem greina og birta hjartsláttinn jafnóðum meðan á æfingunni stendur. 

Það þarf að þekkja hvíldarpúls hests til að nota við matið á þolinu til að vita hve lengi það tekur hest að borga súrefnisskuldina.  Þolpróf eru oft gerð á þann hátt að hesti er riðið á jöfnum hraða ákveðna vegalend þar sem álagið er líkast því sem er þegar til alvörunnar er komið og púls tekinn strax að reiðinni lokinni.  Síðan er fylgst með hvenær hestur hefur náð hvíldarpúlsi.  Náist hann undireins þá er hestur annað hvort í mjög mikilli þolþjálfun eða erfiðið á þolbrautinni of lítið til að meta þolið.  Hafi hestur náð hvíldarpúls ca. þrem mínútum eftir að álaginu lauk þá er hestur í nægu þoli til að framkvæma það sem þolprófið mælir.  

Kannt þú að taka púls á þínum hesti?  

Með kveðju
Magnús Lárusson

Myndir sýnir hross í einni af bestu æfingunum fyrir aukið þol, hlaup á jöfnum hraða í lengri tíma undir loftfirrða þröskuldinum, rekstri


Til Baka