Lesa hestar hugsanir?

3. janúar, 2009

“Mr Larusson, telur þú að hestar lesi hugsanir manna” spurði amerísk hestakona mig í lok fyrirlesturs um hesta fyrir nokkrum árum. “Ég ætla ekki að útiloka það, en ég tel að það gerist ekki eins oft og sumir vilja vera láta” svaraði ég með von í brjósti um að svarið mitt myndi vera nógu loðið, en samt svar, til að hún léti kyrrt liggja. Það brást því “ég á nefninlega hryssu sem les hugsanir mínar” fullyrti hún hátt og ögrandi.  Áheyrendur, sem ýmist voru á útleið eftir fyrirlesturinn eða að kveðjast, stöldruðu við og þögnuðu til að fylgjast með.  “Ég er búin að sannreyna það marg sinnis” sagði hún ánægð yfir því að ná athyglinni og geta mátað sérfræðinginn. “Getur þú nefnt mér dæmi um hugsanalestur hryssunnar” spurði ég svipbrigðalaust til að reyna að stytta samtalið.  “Já, í hvert skipti sem ég ætla að biðja hana fara upp á hægt stökk þá ríkur hún stjórnlaust á stökki áður en ég hef gefið ábendingu um hægt stökk.  Hún gerir þetta því hún veit að ég ætla að biðja hana um stökk” sagði hún með hananú svip.

Í stað þess að spyrja af hverju hún hugsaði ekki um hægt stökk í staðin fyrir stökk til sjá hvað gerðist þá kom frá mér. “Og þú ert viss um að þú gerir ekkert rétt áður sem gæti gefið til kynna að þú ætlar að biðja um hægt stökk.  Eitthvað sem hryssan tengir bara við stökkábendingu.” 

“Mr Larusson, ég er viss!” staðhæfði sú ameríksa með röddu sem sagði öllum viðstöddum að vissunni yrði ekki breytt.  Í tilraun til að ljúka samtalinu sem fyrst þá sagði efasemdarmaðurinn að “þetta væri afar athyglisvert dæmi, sem vert væri að skoða frekar”. Frúin uppveðraðist við þessa yfirlýsingu mína og sagðist vilja taka einn reiðtíma ef ég kæmi við hjá sér næsta dag. “Ef hryssan les hugsanir þínar þá færðu reiðtímann frítt sagði ég annars ekki” sagði ég og slapp í bili.

“Þú skalt ríða hryssunni eins og þú er vön” sagði ég næsta dag við eiganda hryssunnar sem las hugsanir. “Rétt áður en þú undirbýrð hryssuna fyrir hægt stökk þá kallarðu á mig til að láta mig vita að stökk sé yfirvofandi” leiðbeindi ég knapanum.  Rétt á eftir stökkviðvörunina þá rauk hryssan á fullri ferð á stökki.  Eftir nokkurn barning við að ná völdum á ný yfir hryssunni kom knapinn ríðandi til mín. “Þarna sérðu sönnunina” var sagt sigri hrósandi og með nokkru yfirlæti.

“Ég er með tillögu.  Þegar þú undirbýrð hryssuna næst fyrir hægt stökk þá skaltu stytta tauminn án þess a setja hendurnar út til hliðanna.  Farðu og prufaðu aftur að ríða stökk” sagði ég og bandaði þeim frá mér.  Knapinn hlýddi og fór.  Í þetta sinn stökk hryssan hægt í fallegum bogum. “Reyndu aftur!” hrópaði ég því hún var í kallfæri.  Hryssan fór aftur upp í fallegt stökk og algerlega undir stjórn. “Reyndu aftur og hugsaðu stökk af öllum mætti!” hrópaði ég aftur og líklega mátti greina smá ertni í röddinni. Eftir nokkrar endurtekningar á hægu stökki undir stjórn borgaði hún fyrir reiðkennsluna án þess að tala nokkuð um hugsanalestur hrossa.

Telur þú að hross geti lesið hugsanir þínar?

Meðkveðju
Magnús Lárusson

Heldur þú að þessi mynd sýni hugsanalestur?  Tvær skjóttar úr stóðinu í Holtsmúla.

Lesa hestar hugsanir?