Hvar á botninn að vera?

23. mars, 2008

“Af hverju er beygir andskotans hesturinn svona illa.” kvartaði vinur minn pirraður þegar hann var að undirbúa hestinn sinn fyrir sniðgangsæfingu með því að ríða bauga.  “Ég sný mér í samræmi við beygjuna eins og þú kenndir mér.  Hvað er að?” hélt hann áfram fúll.  Þessi vinur minn gerir alltaf kröfur um að fá að vita
hvers vegna og hvernig á gera hlutina og kaupir aldrei neitt hálfútskýrt.

“Þú situr ekki á réttum stað á hestinum.” sagði ég við vin minn “og þess vegna er hann skakkur bæði þegar þú ferð beint og beygir, sérstaklega þegar þú beygir til hægri.  Sérðu þessa mynd (M1), sem sýnir knapa á hesti aftan frá.  Krossarnir sýna þyndarpunkta þeirra. Þegar hryggsúla knapa kemur beint upp frá hryggsúlu hests þá eru þyngdarpuntar beggja í lóðlínu og knapi situr í jafnvægi á hestinum. Þessi sjón er fremur óalgeng og því þarft þú að sjá hið algenga sem þessi mynd (M2) sýnir.  Á henni situr knapi til vintri á baki hests eins og sést á því að þyngdarpunktur knapa er til vinstri við þyndgarpunkt hests.” Ég gerði smáhlé á ræðunni því ég bjóst við að hvers vegna kæmi um og leið og tækifæri byðist og ég var sannspár.

“Flestir hestar virðast vera með vinstri fætur sterkari en þá hægri.  Það hafa ekki verið gerðar mér vitanlega neinar beinar rannsóknir á því en margt bendir til þess að svo sé.  Dæmi því til stuðnings má m.a. nefna að vinstri hófar mælast oft aðeins stærri vegna meira álags en hægri hófar segja gamalreyndir járningamenn og hestar stoppa oftar á vinsti framfæti en hægri framfæti.  Þá kemur að minni kenningu.  Þar sem vinstri fætur eru sterkari þá vilja hestar bera meiri þunga vinstra megin sem leiðir til þess að þeir halda vinstri hliði sinni aðeins hærra en þeirri hægri.  Við leitumst síðan við að sitja vinstra megin því okkur finnst það þægilegra því það er hærra. Þetta er mín kennig og þú ræður hvort þú kaupir hana eða ekki.”

“En hvað á ég þá að gera í beygjunni?” spurði min vinur hálfpartinn annars hugar því hann var enn að melta ræðustúfinn og greinilega ekki búinn að ákveða hvort af kaupunum á kenningunni yrði.  “Segjum að þú sitjir eins og myndin M2 sýnir og farir þannig í beygju til vinstri þá er nánast alveg öruggt að þyngdarpunktur þinn er fyrir innan þyngdarpunkt hests og vinnur þá með hestinum þegar hann beygir.  Hins vegar ef þú ferð þannig í hægri beygju þá vinnur þyngdarpunktur þinn á móti hesti í beygju því hann er þá á ytri hlið hests. Þú átt að færa á þér botninn til hliðar svo þyngdarpunktur þinn verði á innri hlið hests þegar beygja byrjar.  Ég geri það þannig að ég nota verðandi ytri fót til að ýta mér til hliðar í átt að verðandi innri hlið til að undirbúa beygjuna og varast að halla mér inn í beygjuna.” lauk ég útskýringunni. 

Eftir nokkra bauga á báðar hendur þá fannst mér einhvern veginn að kenningin væri keypt.

Hvar er þyngdarpuntur þinn í beygjum miðað við þyngdarpunkt hests?

Með kveðju
Magnús Lárusson
Hvar á botninn að vera?