Hjálmur

13. apríl, 2008

“Þeir nota hjálm sem eitthvað hafa að verja.” er gjarnan mitt viðkvæði þegar einhver mætir í reiðtíma hjálmlaus hjá mér og vill komast upp með það.  “Ef þú hefur ekkert að verja þá hefur þú ekkert hér að gera því þú getur þá ekki lært.” bæti ég gjarnan við og læt þannig að því liggja að það þurfi heila til að nota við lærdóminn og heilann þurfi að verja fyrir höfuðhöggum sé hann til staðar. 

Ég er úr sveit.  Þar sást ekki nokkur maður ríða með hjálm þegar ég var lítill nema þegar heldrimenn að sunnan riðu hjá garði.  Þeir voru líka í reiðbuxum sem bunguðu út til beggja hliða og náði bungurnar niður á mið læri. Þar fyrir neðan komu mjóir spóaleggir sem neðst voru huldir leðurreiðstígvélum sem voru ýmist heil eða reimuð.  Ofan við útvíðar reiðbuxurnar var hnepptur jakki og vesti þar fyrir innan og ofan á öllu saman trjónaði reiðhjámurinn eins og punturinn yfir iið.  Þessi sjaldséða sjón vakti bæði kátínu og virðingu hjá okkur krökkunum. Kátínan spratt af því að okkur fannst klæðnaðurinn gera riddarana kjánalega í laginu.  Hins vegar kom virðingin, sem var reyndar óttablandin, vegna þess að þeir töluðu gjarnan hátt þegar þeir töluðu við hjálmlausa samferðamenn sína og virtu okkur krakkana, sem störðu opineygð á hersinguna fara fram hjá, ekki viðlits.

Heldrimannahjálmar fyrri tíma þættu ekki merkileg vörn í dag gegn höfuðhöggum ekkert frekar en hjámarnir sem ég byrjaði að nota fyrir nokkrum áratugum.  Mínir fyrstu hjálmar voru þungir, óþægilegir og lágu þétt að höfðinu.  Þegar pottlokið var tekið ofan í lok dags þá var hárið klístrað og illa lyktandi. Lyktin var á heitum sumardögum slík að maður velti því fyrir sér hvernig í fjandanum kettinum hafi tekist að hafa viðkomu í hjálminum án þess að eftir því væri tekið.

Hjámar dagsins í dag hafa aðra náttúru.  Þeir eru léttir, þægilegir að bera og það loftar um höfuðið.  Síðan en ekki síst þá hafa þeir þá náttúru að þeir vernda höfuðið gegn höggum og það hefur verið sannað.  Þess vegna þykir við hæfi að hafa hjálmaskyldu þegar hestum er riðið í hestaíþróttum, gæðingakeppni, kappreiðum, kynbótasýningum og öðrum hestatengdum uppákomum.  Hafi hjálmurinn gleymst heima þá er sá hjálmausi ólöglegur og gerir ógilt þess vegna.

Það vekur athygli í dag þegar knapi sést ríðandi hjálmlaus utan keppni.  Athyglin er því meiri sem knapinn er þekktari fyrir reiðmennsku sína.  Þeir eru til eftirbreytni fyrir þá sem yngri eru og eru því í ábyrgðarhlutverki þegar þeir sjást á hestbaki hvort sem þeir eru hjálmlausir eða ekki.  Ég hef velt fyrir mér ástæðunni, hvort þeir hafi ekkert að verja eða telja sig svo mikið færari en okkur hina að ekkert geti hent þá eða eru öll hjálmlausu skiptin á baki einstök tilviljun eða er hér Alshæmer light á ferðinni?

Notar þú reiðhjálm?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Mynd:  Maggi Lár er viss um að hann hafi eitthvað að verja og notar því hjálm

Hjálmur