Half halt

18. nóvember, 2008

“Mr. Lárusson.  Þegar þú kemur að næsta horni þá byrjar þú að gefa half halt og gerir það í hverju skrefi á meðan þú ríður hornið” glumdi í reiðhöll Ríkisháskólans í Oregon fyrir rúmum áratug.  Þegar hornið var að baki glumdi aftur. “Mr. Lárusson. Ég sá ekki að þú gerðir eitt einasta half halt.  Hvers vegna?” sagði röddin á skýran hátt og með auðheyranlegu orðabili þannig að erfitt var að misskilja hið talaða orð.  “Ég veit ekki hvað half halt er” stamaði ég á bjagaðri ensku hálfskömmustulegur. “Hvað, veistu það ekki og ert reiðkennari á Íslandi?” sagði röddin hálf hissa þar sem eigandi hennar, grand prix reiðkennari og keppandi, stóð fyrir framan mig.

“Þú fylgir hreyfingu gangtegundarinnar, sem þú ert að ríða, og þegar þú gerir half halt þá hættir þú að fylgja hreyfingunni með því að stífa líkamann í örstutta stund” útskýrði hann.  “Prófaðu þetta núna á feti og ég læt þig vita þegar hesturinn svarar þér á réttan hátt”.  Eftir nokkrar tilraunir fór half haltið að virka hjá mér eftir því sem minn lærimeistari sagði.  “Taktu eftir viðbrögðum hestsins þegar þú gefur half halt sem virkar” bætti hann við. Eftir nokkra stund var spurt. “Og hvaða viðbrögð finnst þér að hesturinn sýni við half haltinu?”

“Mér sýnist að hesturinn vísi eyrunum aftur í hvert sinn sem ég gef half halt” sagði ég hálf hikandi. “Og eitthvað fleira?” spurði hann eftir smá þögn. “Mér finnst eins og hann hægi á sér jafnframt því að bak lyftist upp” svaraði ég.

“Þú er að uppgötva áhrifamátt half halts” sagði meistarinn. “Með því að nota half halt þá gerist tvennt.  Í fyrsta lagi nær maður athygli hestsins sem sést á því að eyrun fara aftur eins og þú tókst eftir.  Mikilvægt er að skilja að hestur er miklu líklegri til að gera eins og hann er beðinn um ef athygli hans er á knapanum.  Í öðru lagi kreppir hann lendina sem finnst í hnakk á því að bak lyftist eins og þú sagðir sjálfur.  Þegar hestur kreppir lendina þá verður hestur minna á framhlutanum og jafnvægi hans vex því.  Og þá hefur þú það” lauk hann máli sínu. 

“Og hvenær notar maður half halt” spurði ég til að vera alveg viss. “Nú, ég hélt ég hefði sagt þér það rétt í þessu Mr. Lárusson. Maður notar alltaf half halt þegar þarf að ná athygli hests áður en hann er beðinn að breyta einhverju, s.s. hraða eða gangtegund eða stefnu.  Eins notar maður half halt til að auka jafnvægi hans eins og þegar hann er að detta á framhlutann eða er í beygju eða breyta hraða eða undirbúa og viðhalda söfnun.”

“Þú er í raun að segja mér að ég þurfi nánast stöðugt að nota half halt þegar ég er á baki” sagði ég með vantrú í röddinni.  “Já, ef þú æltar að ríða hestinum” lauk reiðmeistarinn máli sínu.

Notar þú half halt þegar þú ert á hestbaki?

Með kveðju 
Magnús Lárusson

Myndin er af Svanhildi og Kráku, þær eru báðar búnar að læra hvernig half haltið virkar

Half halt