Frekja

27. apríl, 2008

“Hann er svo frekur.” úskýrði röddin í símanum þegar ég spurði hvað væri að hestinum, sem eigandi raddarinnar vildi að ég lagaði fyrir sig. “Hann veður yfir mig þegar ég er að teyma hann og svo stendur hann ekki kyrr þegar ég er að fara á bak honum. Og svo er hann dáldið viljugur, nærri of viljugur og stundum tekur hann bara af mér taumana.” kom svo sem lokalýsing á vandamálinu frekur hestur.

Mér finnst það, sem í daglegu hestamannatali er kallað frekja, vera með tvennum hætti.  Í fyrra tilfellinu þá virðist hesturinn vera óhræddur a.m.k. er ekkert óttablik í augum hans þegar að er gáð. Hann virðir mann ekki í umgengni, er seinn til svars þegar tekið er taum og þungur á taumum þegar á bak er komið. Í seinna tilfellinu þá er hesturinn með óvissu- eða óttablik í augum.  Hann er á stöðugu randi, stiklar um ókyrr hvort heldur sem haldið er í hestinn til þess að fara á bak eða ekki.  Hann er lagður af stað þegar maður er hálfnaður í hnakkinn með háls sveigðan út á hlið eða með trjónuna upp í loftið eða með ofhringaðan makka þar sem nasir nema við bringu.

Þótt ásýndin á meintri frekju sé mismunandi þá er orsökin sú sama.  Hvorugri hestgerðinni hefur verið kennt nægilega vel undirstöðuatriði reiðhestshegðunar.  Grunnurinn að virðingu og trausti á manninum var ekki nógu vel lagður eða hefur molnað niður við áframhaldandi tamningu. Til að laga meinta frekju þá reynist mér fljótlegast að byrja á byrjuninni upp á nýtt.

Er hesturinn þinn frekur?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Mynd:  Spá Sunnevu- og Aronsdóttir hugsar sitt ráð eftir kennslustund hjá Magnúsi
Frekja