Fimiæfingar - til hvers?

17. mars, 2008

Ég tel mig ekki hafa nokkurt vit á fimleikum manna og get sjálfur fátt gert af því sem þeir fremstu geta gert þegar þeir eru að sýna sig.  Hins vegar horfi ég á fimleika í sjónvarpinu nánast hvenær sem boðið er upp á slíkan atburð þar.  Ég dáist að því sem fyrir augu ber, skemmti mér og læt mig stundum dreyma.

Það sem heillar mig í fari fimleikafólks er þegar kraftur, snerpa, liðleiki, léttleiki, samhæfni, kjarkur og áræðni einkenna hreyfingar þeirra.  Þegar öll þessi atriði fara saman í hámarki þá virðist fimin svo auðveld að maður váar ósjálfrátt af hrifningu.  Hins vegar ef vantar upp á eitthvert atriðið þá sér maður það strax og sérstaklega ef atriðið er í algerri andstöðu við það sem sóttst er eftir eins og þegar stirðleiki kemur í stað liðleika eða þyngsli í stað léttleika eða hik í stað áræðni og kjarks.

Mér er sagt af fróðum í faginu að þetta byggist á því að kenna rétta líkamsbeitingu í hverri æfingu fyrir sig.  Endurtaka þarf æfinguna svo oft að viðkomandi geti gert hana auðveldlega og síðan á hrífandi hátt og það tekur tíma sem er mældur í árum en ekki í mínútum.

Fyrir margt löngu þá vissi ég minna um fimi hesta en ég veit nú um fimleika manna.  Úr þessu vildi ég bæta og því átti sér stað eftirfarandi samtal í útlandinu.  “Þú vilt læra að ríða dressúr.” sagði dressúrmeistarinn við mig.  “Þá skaltu byrja á því að fara á nokkur dressúrmót og horfa á hvernig hestarnir hreyfa sig þegar þeir framkvæma fimiæfingar.” hélt hann áfram.  “Já, en ég þekki fæstar þessara æfinga og veit ekki á hvað ég á að horfa.” útskýrði ég hálfhikandi og feiminn að viðurkenna vankunnáttu mína fyrir honum.  “Þetta er einfalt. Þú byrjar á því að skoða hvort þér finnst hesturinn vera þvingaður á einhvern hátt þegar hann framkvæmir einhverja æfingu eða finnst æfingin vera hestinum erfið.  Þá skaltu staldra við og finna út hvað veldur þvinguninni eða erfiðleikunum því æfingin er þá gölluð og í besta falli skaðlaus fyrir viðkomandi hest.  Algengir gallar eru þegar hestur er ekki beinn þegar hann á að vera beinn í æfingunni og háls ofsveigður þegar hestur á að vera jafnsveigður frá banakringlu aftur í taglrót.  Eins er algengur galli að hestur er ekki á þrem sporaslóðum þegar hann á að vera það eins og í flestum æfingum þar sem hestur á að vera sveigður.  Eins er það galli þegar vantar burð í lend og bak hests og sést það á því að hestur er móti beislinu og því á framhlutanum.  Sennilega er einn versti gallinn þó sá þegar knapi hálfhangir út á hlið með fætur aftur í nára á hesti til að fá hest til að víkja til hliðar frá þunga knapans. Fyrir utan ljótleikann þá skilar þessi tækni aldrei réttri líkamsbeitingu hjá hesti og getur því aldrei skilað árangri í þá átt að auka fimi hans.” lauk minn meistari sinni sinni ræðu.

Ofantaldir gallar sáust allir í gæðingafimi meistaradeilar VÍS í síðust viku og sumar sýningarnar höfðu þá alla.  Þrír efstu knaparnir riðu hestunum sínum án galla og sumar æfingarnar voru riðnar á mínum hrifningarmörkum.  Þeir hafa getuna og kunnáttuna og þurfa bara aðeins meiri tíma til að fara alla leið.

Sérð þú þegar hesti er riðið fimiæfing hvort hún hefur tilætluð áhrif eða er gölluð?

Með kveðju,
Magnús Lárusson

Mynd:  Þrátt fyrir allar fimiæfingar, þá eru sumir hestar, og verða alltaf ferlegir tréhestar!

 

Fimiæfingar - til hvers?