Ég tapaði!

13. desember, 2009

Ég fór á folaldasýningu í Rangárhöllinni í gær með mínum betri helming ásamt yngsta erfingjanum.  Við tókum þátt í sýningunni með eitt af ræktunarstoltum árins í formi hestsfolalds.  Við töpuðum því allt annað en fyrsta sætið er tap. 
Ég er fúll yfir tapinu og þess vegna finnst mér rúmlega þriggja klukkustunda sýning allt of löng.  Tveggja stunda sýning er nógu löng að mínu mati.  Mér sýndist fleiri vera sömu skoðunar og ég því rössum á áhorfendabekkjunum fækkaði mjög er fór að síga á þriðja tímann.  Ég túi því að harðir bekkir og ónógur hiti hafi líka átt einhverja sök á snöggri fækkun rassa á þessum tímapunkti.
Ég er fúll yfir tapinu og þess vegna finnst mér dómarnir hafi tekið allt of langan tíma.  Það var löngum ekkert að gerast, menn og skepnur tví- og ferstigu í vandræðagangi þegar ungviðið var skoðað.  Og ekkert var sagt, hvorki hvað var verið að skoða eða hvernig það leit út sem skoðað var svona til að uppfræða og skemmta þeim sem á horfðu. 
Ég er fúll yfir tapinu og þess vegna finnst mér að ég hafi heyrt illa í þulnum.  Ekki vegna þess að hann geti ekki talað eða vegna þess að hann sé óskýrmæltur eða hafi almennt  ekkert að segja eða hann sé leiðinlegur.  Ég þekki hann af öðru og því tel ég hann hefði verið áheyranlegri hefði hann talað án tæknibúnaðarins, sem talað var í, því nægur er raddstyrkurinn ómengaður.
Ég er fúll yfir tapinu og þess vegna í stuttu máli fannst mér sýningin ekki skemmtileg til þess var hún of langdregin og slæm tenging milli þess sem fór fram á sviðinu og áhorfenda.
Þrátt fyrir að ég sé fúll yfir tapin þá er ég sammála niðurstöðu dómaranna um efstu folöldin í báðum flokkum sýningarinnar.
Þrátt fyrir að ég sé fúll yfir tapinu þá er ég viss um að þetta verði komið í lag á næsta ári þegar ég vinn.

Skrifað fyrir nokkrum vikum síðan,
með kveðju,
Magnús Lárusson

P.S. Myndin er tekin á miklu skemmtilegri folaldasýningu, þarna unnum við!

Ég tapaði!