Að vera foreldri

16. mars, 2012

 

„Pabbi!  Já, en ég hlaupti fram í eldhús og sótti svala fyrir Berglindi“ sagði Edda, 6 ára dóttir mín, við mig þegar ég innti hana eftir því hvers vegna sú yngri grenjaði fyrir framan sjónvarpið snemma einn laugardagsmorguninn fyrir stuttu. „Já, ég hljóp fram í eldhús“ skaut ég inn í frásögnina til leiðréttingar eins og ábyrgt foreldri. Og hún endurtók þá. „Já, ég hljóp fram í eldhús“ og síðan hélt frásögnin áfram um systraósættið sem truflaði velþurfandi morgunsvefn foreldranna.  Þetta er eitt dæmi um að vera foreldri eða uppalandi eða gagnrýnandi - að leiðrétta það sem maður telur að sé rangt þangað til það verður  að minnsta kosti minna augljóslega rangt.  Í ljósi þessa heldur þessi greinarstúfur ögn lengra niður síðuna.

Sagt var efnislega í aðsendri grein á Hestafréttum fyrir nokkru síðan að Stefán Friðgeirsson og Dagur hefðu riðið fimmganginn best og þeir þess vegna unnið. Það er ekkert nýtt fyrir mér að Stefán ríði fimmgang vel á Degi en það er nýtt fyrir mér að þeir séu báðir ríðandi við það tækifæri. 

Samkvæmt reglum Landsambands Hestamanna þá er hesturinn sigurvegari í gæðingakeppni og knapinn í íþróttakeppni.  Þess vegna er það rétt að segja að Stefán hafi sigrað fimmganginn í umræddri frétt og hann hafi setið eða riðið eða keppt á Degi.

Þulur í Meistardeild Vís sagði „ ..og þarna koma stelpurnar..“  í kynningu á næsta pari sem kynnt var til leiks í slaktaumatöltinu fyrir stuttu.  Sara Ástþórsdóttir kom þá ríðandi á Dívu inn í salinn til að hefja keppni.  Mér finnst allt í lagi að kalla Söru stelpu við þetta tækifæri en ekki Dívu þótt Dívu, að ég held, sé alveg sama.  Díva er hryssa eða meri eða kapall eða ...

Vandað mál á opinberum vettvangi, líka varðandi hross, skiptir máli því „Börn hafa það eftir sem fyrir þeim er haft“  var sagt í mínu ungdæmi og mér sýnist það vera enn í gildi. 

Á myndinni æfir Edda Margrét sig fyrir framan hljóðnemann!

Að vera foreldri