Að stíga brokk

6. desember, 2008

“Sittu kyrr á hestinum” sagði stórknapinn hvasst við útlenska vinkonu mína.  Þau voru á sitt hvorum hestinum á útreiðum. Hann reið á einum af mörgum keppnishestum, sem voru í þjálfun hjá honum. Hún reið hins vegar á lítið tömdu trippi, sem var óöruggt á brokki og vildi fara yfir í tölt þegar það missti jafnvægið.  “Meinarðu að ég eigi ekki að stíga brokkið” spurði hún undrandi.  “Þetta er ljót áseta, hentar ekki íslenskum gæðingi og aðeins gert á lötum höstum hrossum af krökkum sem eru að byrja að ríða hesti” sagði meistarinn hálfpirraður og bætti við “útlendingar gera þetta líka enda ekki vanir ganghestum.”

“En trippið tollir betur á brokkinu þegar ég stíg brokkið” andmælti sú útlenska.  “Þú átt að vera í hálfléttri ásetu þegar þú ríður brokk á tryppi til að fría bakið við þunganum þannig að brokkhreyfing baksins nái að myndast”  útskýrði meistarinn.  “Já, en ef ég stíg brokkið þá fría ég bak tryppisins og segi því einnig hvernig það eigi að hreyfa bakið. Jafnframt stígur það lengra fram með afturfót skástæðunnar sem ég stíg.  Afturfóturinn verður því að bera meiri þunga og lengur.  Við það verður afturfóturinn smám saman sterkari.  Þannig að hægt er að nota tæknina að stíga brokk til að jafna út misstyrk afturfóta.  Og niðurstaðan verður sú að hestur verður öruggari á brokki, misstyrkur hans minnkar, jafnvægi hans eykst, svif á brokki eykst og fjórtaktað brokk verður smám saman tvítakta” sagði hún andstutt meðan hún reyndi að muna allt sem hún hafði lært um brokk í reiðskóla hersins í heimalandi sínu.

“Hm, þetta brokkstig getur þá gert ansi margt fyrir hestinn, ef satt er” sagði meistarinn hugsi. “Það er hægt að gera fleira með þessari tækni.  Það er miklu auðveldar fyrir hest að tolla á brokki í beygjum ef ytri skástæðan er stígin.  Það er vegna þess að innri afturfótur, sem beygir hestinum, fer meira fram og undir hestinn þegar ytri skástæðan er stigin.  Eins er hægt að hægja á hesti niður í fet af brokki með því að stíga brokkið hægar og hægar án þess að hestur fari í tölt rétt áður en fetinu er náð eins og algengt er með þessa ganghesta ykkar” lauk sú útlenska máli sínu.   

“Það er best að þú brokkstígir tryppin í einhvern tíma en fyrir alla muni láttu engan sjá þig gera það” lauk umræðunni millum þeirra.

Stígur þú brokk til að minnka misstyrk eða auka brokköryggi eða hjálpa hesti til að vera í betra jafnvægi?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Myndin sýnir stóðhestinn Víði frá Sæfelli á svifmiklu brokki

Að stíga brokk