Að skella saman skoltum

22. janúar, 2009

“Hvaða hljóð er þetta sem hesturinn gefur frá sér?” spurði ég reiðkennarann minn og benti í laumi á umræddan hest niðri á vellinum. Við sátum uppi í áhorfendastúkunni og biðum eftir því að kennslustundinni lyki hjá hópnum sem var á undan okkur.  “Hesturinn skellir saman kjaftinum í sífellu” svaraði minn meistró “og tannaskellirnir bergmála vegna holrúmsins í hausnum á hestinum.”

“Hesturinn er stressaður” svaraði meistró áður en ég gat spurt aftur.  “Þú hefur sennilega tekið eftir því að hesturinn gnísti tönnum þegar knapinn var að byrja reyna að koma honum við taum.  Hesturinn stressast og bítur saman jöxlum og hreyfir kjálkana í sífellu á víxl.  Þannig myndast tannagnístshljóðið, sem við heyrðum áðan, og er mun lægra en þessir skellir.  Við endurteknar taumatostilraunir knapa við að koma hestinum við taum þá stressast hestur meira og byrjar að skella saman skoltunum í sífellu.”

“Knapinn tók nú ekki svo fast á hestinum að hann hafi ekki átt að stressast svona mikið upp” benti ég mínum manni á.  “Það getur verið rétt hjá þér Mr. Larusson. Þessi hefur sennilega stressast upp vegna minninga um fyrri og mun meiri taumatos við að koma honum við taum.  Hestar eins og þessi eru vandriðnir vegna þessa.  Þeir þola engin mistök hjá knapa eða mikinn flýti í upphitun, en ef svo er þá stressast þeir upp. Sumir knapar reyra saman kjaftinn á svona hestum með reiðmúlum til að koma í veg fyrir að stresshljóðið myndist en önnur einkenni stressins blasa við.”   

“Hver eru önnur einkenni?” spurði ég og bætti við “Mér finnst hálsinn á hestinum vera í fallegri reisingu og eftirgjöf í hnakka.”  Minn meistari hallaði undir flatt og horfði á mig smá stund með augnaráðinu “er ekki í allt lagi með þig Íslendingur” áður en hann hélt áfram. “Eins og þú sérð þá er þessi hestur ýmist á bak við beislið eða hallar undir flatt.  Þegar hann er á bak við beislið þá virkar aukið taumsamband ekki hamlandi á ferð heldur hringar hann hálsinn bara meira. Hann er þá ekki undir stjórn hvorki hvað varðar stefnu né hraða.  Hins vegar þegar hann hallar undir flatt þá skýtur hann öðrum bógnum út, verður skakkur og líkamsbeiting hests hæfir ekki því verkefni sem honum er ætlað.”

Hestum með þessi einkenni stress og gallaðrar uppstillingar fer fjölgandi hér á landi.  Það var því vel við hæfi að hestur með einkenni, sem þessi í ríkum mæli, væri prófverkefni okkar sem þreyttu próf prófdómara í knapamerkjum norður á Hólum í byrjun þessa árs. 

Gnístir þinn hestur tönnum eða skellir hann skoltum?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni er Hylur frá Bringu sáttur við taumhendi knapa síns

Að skella saman skoltum