Að hvetja hest

28. apríl, 2008

Ábendingar er fínt og algengt orð yfir hvers konar áreiti sem notað er til að hafa áhrif á stefnu, hraða og gangtegund hests þegar honum er riðið eða unnið er með hann frá jörðu.  Áreitið eða ábendingin, sem fá hest til að fara hraðar eða viðhalda hraða hans eða hafa áhrif á gangtegund hans, er oftast kölluð hvatning og er viðfangsefni þessa pistils.

Knapi notar venjulega fætur sína eða rödd eða písk til að hvetja.  Hann getur notað hvatningartólin saman eða eitt sér.  Knapi endurtekur hvatninguna þar til hestur byrjar að gera það sem hann er beðinn um en þá skal strax hætt að hvetja til að verðlauna fyrir umbeðna hegun. Síðan skal hvetja aftur þegar áhrif fyrri hvatning eru uppurin ef þarf. Verði ekki hlé á hvatningu þá skilur hestur ekki að hann hafi gert rétt. Oft sést að hvatningar sumra kappsfullra skeiðknapa hætta ekki fyrr en hestur hefur stokkið upp þrátt fyrir að hestur sé augljóslega að gera sitt ýtrasta og er því hesti umbunað fyrir að stökkva upp, þ.e. hætta að skeiða.
Ef hvatning er meiri en þörf er á, þ.e. meiri þrýstingi er beitt í hvert skipi sem hvatt er, þá veldur það ótta eða reiði hjá hesti sem gerir það að verkum að hestur stífnar upp, skrefin verða styttri og skeiðferðin minnkar. Setji ég mig í þau spor að ég sé að hlaupa eins hratt og ég get og þá komi einhver og berji mig ýmist látlaust með písk eða berji bylmingshögg hvað eftir annað í rifjakassann á mér þá er líklegt að ég gæfist fljótlega upp á hlaupunum.

Ég trúi því að þessari þekkingu beiti fremstu skeiðreiðarmenn Íslands við uppbyggingu sinna skeiðhesta.

Hvernig hvetur þú þinn hest?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni er flínkur knapi, Hekla Katharina Kristinsdóttir, að ríða skeið - átakalaust með miklum afköstum
Að hvetja hest