Að fara á bak

18. maí, 2008

“Endurtaktu þetta í hvert skipti sem þú ferð á bak.  Hesturinn lærir þá að standa kyrr og bíða eftir þér.” sagði reiðkennarinn við mig.  Ég sat á lötum og stórum reiðkennsluhesti af útlendu kyni og hlustaði á minn meistara sem hélt áfram með lesturinn.  “Hestur lærir annað hvort að standa kyrr eða hann lærir að standa ekki kyrr.  Það skiptir miklu máli að hestur læri að standa kyrr þar til knapi hefur komið sér fyrir í hnakknum og biður hest um að fara af stað.  Mér finnst ég aldrei geta lagt of mikla áherslu á þetta atriði við mína nemendur.” Ég horfði frá sæti mínu niður á minn reiðmeistara með efa í huga og svip því mér fannst hann vera að gera of mikið mál úr því að hesturinn minn stóð ekki kyrr þegar ég fór á bak.

“Hugsaðu þér að þú ættir bíl sem færi alltaf af stað um leið og þú ætlaðir að stíga upp í hann.  Fyndist þér það ekki óviðunandi og létir gera við bílinn?” sagði minn meistari augljóslega óánægður með minn efasemdarsvip sem þurrkaðist af þegar ég heyrði samlíkinguna.  “Síðan skaltu muna Mr. Larusson að það er auðveldara að fara á bak standi hestur kyrr meðan paufið stendur yfir og maður kemur sér fyrir í hnakknum.  Við eru ekki alltaf 25 ára og 70% af kjörþyngd.”  bætti minn lærimeistari við í lokin.

En hvað átti ég að endurtaka?  Ég átti að endurtaka það að fara á bak hestinum þegar hann væri með framfætur samsíða.  Á þann hátt væri auðveldara fyrir hann að standa í jafnvægi við truflandi uppgöngu knapa.  Eins átti ég að færa hestinn strax í fyrri stöðu ef hann hreyfði sig við uppgönguna. Gott væri að gefa hesti nammi áður en farið væri á bak stæði hann á annað borð kyrr og eins að gefa honum nammi þegar á bak er komið.  Fyrri nammigjöfin virkar sem andskilyrðing, þ.e. tengja gott við það sem hesti gæti þótt vont og hin síðari virkar sem verðlaun. Þetta átti ég að endurtaka í hvert sinn sem ég færi á bak þessum útlenda hesti þar til hann hefði lært að standa kyrr þegar ég færi á bak og æ síðan til að viðhalda því að hann stæði kyrr.  Ég hef notað þetta síðan á útlenska og hérlenska hesta með fullkomnum árangri. 
 
Stendur hesturinn þinn kyrr þegar þú ferð á bak og bíður eftir því að þú segir honum að fara áfram?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Hesturinn á myndinni stendur greinilega kyrr við upp-paufið...

Að fara á bak