Að bjarga íslenskri hrossarækt

31. mars, 2008

Það þykir oft árangursríkt að fá skoðanir eða sjónarmið frá aðilum sem standa fyrir utan hringiðu hverrar greinar eða eru nýir í greininni.  Þeir eru ekki heftir af skoðunum annarra í greininni eða viðteknum venjum.  Þeir sjá hlutina öðruvísi, spyrja annarra spurninga og hafa aðrar skoðanir hvað beri að gera en þeir sem eru innanbúðar.  Utanbúðarmenn hrista því oft upp í hlutunum af þessum sökum og frá upphristinu geta komið ný spírandi fræ.  Innanbúðarmenn brosa gjarnan góðlátlega að “bullinu” með von um að það rjátlist af þeim nýju.  Stundum eru þeir nýju kaffærðir með stöðluðum og gömlum svörum sem hafa þann undirtón að hlutirnir séu fínir eins og þeir eru og skulu látnir óræddir og óhreyfðir. 

Á síðasta aðalfundi Hrossaræktarsambands Suðurlands var Kári Stefánsson erfðagreiningarforstjóri fenginn til að gefa ráð til að efla íslenska hrossarækt.  Eitt ráðið, sem hann gaf, var að leyfa innflutning íslenskra hrossa.  Mikilvægt væri að menn gætu farið óhindraðir með sín bestu hross milli landa til keppni og sýninga.  Erlendir aðilar gætu mætt hér á mót með sína keppnisfáka og síðan til síns heima aftur ef þeir kysu að gera svo.  Íslendingar gætu því farið með sína albestu hross til keppni erlendis eins og heimsmeistaramót og komið með þá aftur heim í stað þess að verða að selja.  Eins gæti það verið fengur fyrir hrossaræktendur á Íslandi að nota kynbótahross sem flutt hafa verið út eða eru ræktuð þar.  Hann taldi að vert væri að skoða þennan möguleika á innflutningi á hrossum þrátt fyrir aukna hættu á innflutningi á smitsjúkdómum í kjölfarið.  Hann vildi meina að spurningin væri ekki um hvort heldur hvenær slík óáran kæmist inn í landið.  Kannski væri það hrossastofni landsins fyrir bestu að vera kynntur fyrir pestum smám saman svo hann felli ekki allur um koll þegar alvörupest kæmi.  Þarf að einskorða innflutningin við íslenska hestinn kom upp í huga mér þegar ég hlýddi á fyrirlesturinn.

Lusitano hesturinn frá Spáni, Frisien hesturinn frá Hollandi og Saddlebred hesturinn frá Bandaríkunum heilla mig hesta mest.  Lusitano hesturinn hefur einstæða hæfileika til söfnunar, léttleikinn á brokki og sérstaklega á stökki er eins og best getur orðið.  Ég hef séð nokkra hesta af þessu kyni tölta hægt og það er ógleymanleg sjón.  Frisein hesturinn með sín hrafnssvörtu hár, hringaðan makka þar sem prúðleikinn er meiri en gerist venjulega í öðrum hestakynjum, rúmur á brokki með mikla fótlyftu er hrífandi sjón hverjum sem á horfir.  Síðan er það páfuglinn í hestaheiminum, Saddlebred hesturinn.  Hann er með háttsettan svanaháls, langa fætur, léttan bol og fer um á rúmu tölti með ævintýralegum fótaburði.  Mig langar að rækta og eiga svona hesta.

Hvernig hest langar þig að rækta og eiga?

Með kveðju,
Magnús Lárusson

Það eru ekki margir reiðmenn flottari en Siguborg Jónsdóttir á Báreksstöðum á sínum alíslenska hesti, í alíslensku veðri í hestaferðalagi á Íslandi

Að bjarga íslenskri hrossarækt