Stóðhestaúrvalið í Holtsmúla í sumar komið á hreint

17. apríl, 2015

Við munum bjóða upp á sex frábæra stóðhesta í sumar til undaneldis.  Hér er á ferðinni mikið úrval af hestum hvað varðar byggingu og hæfileika.  Úrvals klárhestar eins og Bragur og Viti eru þar á ferðinni, en einnig topp alhliða hestar eins og Þeyr, Narri og Þórálfur.  Eldur frá Torfunesi heiðrar okkur einnig með einu tímabili í viðbót, enda erum við afar ánægð með folöldin undan honum.  Þó að þessir hestar séu ólíkir um margt, þá eiga þeir það allir sameiginlegt að vera dæmdir með há fyrstu verðlaun, og vera með fyrstu verðlaun fyrir bæði byggingu og hæfileika.  Einnig eru þeir allir undan fyrstu verðlauna foreldrum og með hátt kynbótagildi.  Litaflóran er mikil og við erum stolt af þessu úrvali.

Til að skoða hestana nánar hvetjum við ykkur til að kíkja á heimasíðu stóðhestanna, en hana má  finna hér.  Þar má finna allar upplýsingar eins og verð, dóma, ættir, myndir, video og fleira.  Endilega hafið svo samband ef þið viljið panta toll.

Á myndinni situr Þórarinn Eymundsson stóðhestinn Narra frá Vestri-Leirárgörðum, en hann verður í Holtsmúla strax eftir Íslandsmót og út sumarið.

Stóðhestaúrvalið í Holtsmúla í sumar komið á hreint