Sagan endalausa

9. desember, 2014

„Munurinn á heimsku og snilligáfu er að snilligáfan hefur takmarkanir“  var haft eftir Albert Einstein fyrir margt löngu og er niðurstaða snillings á mannlegum eiginleikum.  Ég hef fylgst með umræðum um staðarval fyrir Landsmót hestamanna í hartnært 40 ár úr fjarlægð og finnst ekkert hafa breytst varðandi karpið allan þann tíma.  Takmarkalaus óeining, eiginhagsmunapot, þröngsýni og skortur á framtíðarsýn hafa vegið mest hjá þeim sem hafa haft hæst um staðarvalið.  Rökin hafa verið öskur og fruss á almennum fundum, síðan baktjaldamakk og rógur á milli funda. Loforð og vanefndir hafa haldist hendur eins og síamstvíburar.  Þetta ástand hefur engar takmarkanir nema síður sé – birtingarmyndin er bara mismunandi eftir því hvert árið er. 

Eftir hvert staðarval standa menn hoknir og vígamóðir.  Engin orka, engir peningar, enginn tími og ekkert hugmyndaflug er eftir til að þróa þau atriði sem í boði verða eða markaðssetja mótin.  Á borð eru borin lúin og úrsérgengin atriði sem ekki eru í takt við núið heldur gamalt þá.  Svo veit varla nokkur maður hvar, hvenær og hvað er í boði á matseðlinum nema nokkrir gamlir rokkar.  Hvers vegna skyldi einhver nýr banka upp á og spyrja. „Má ég vera memm?“

Magnús Lárusson, M.Ag.

Mynd:  Við Kría frá Lækjamóti vorum saman í hart nær 30 ár og ég veit að hún hefði skrifað undir þennan pistil væri hún enn lifandi.

Sagan endalausa