Mýkt með tilheyrandi

27. maí, 2014

Andstæðurnar mýkt og stirðleiki eru mörgum hestamanninum hugleikinn og mikið notuð til að lýsa hreyfingum hrossa. Venjulegur köttur sýnir mikla mýkt þegar hann hreyfir sig hvort heldur hann fer hægt eða hratt. Það greinist engin fyrirstaða í einum einasta lið og vöðvar lengjast og styttast á víxl eftir þörfum hreyfinganna, það er eins og hann líði áfram áreynslulaust.  Stirðleiki er andstæða mýktar eins og áður er sagt og ef til vill er blessuð mjólkurkýrin mest stirðleika lýsandi fyrir okkur sveitamenn ofan af Íslandi.

Mýkt í hreyfingum töltandi hests sést einna best þegar farið er hægt á tölti.  Bæði vegna þess að það þarf mýkt til að geta farið hægt tölt í jafnvægi og eins þá hefur mannsaugað nægan tíma til að greina mýktina þekkist hún á annað borð.

Töltgæði teljast m.a. vera rýmd, fótaburður og mýkt.  Að geta farið hratt með því að lengja skrefin fremur en auka tíðni þeirra er að mínu mati æskilegt og kalla það rýmd.  Há hnélyfta framfóta með framgripi í framstigi þykir kostur í keppni fyrir hégómlega hestunnendur eins og mig og mína líka.  En forsendan fyrir því að rýmdin og fótaburðurinn njóti sín og heilli mig er að mýkt fylgi með í ríkum mæli.  Ég hef ekki enn séð hest með eins ríkulega mýkt á tölti og ég sá hjá Arioni frá Eystra – Fróðholti á yfirlitssýningu í Hafnarfirði seinni part gærdagsins.  Ég hef séð hesta sem hafa farið hraðar á tölti en Arion og ég hef séð hesta sem lyfta hærra en Arion en ég hef ekki séð eins mikla mýkt á tölti og hjá Arion.  Ég heillaðist og hann fær mína 10.

                                       Magnús Lárusson

Mýkt með tilheyrandi