Frábæru fjögurra daga námskeiði með Peter DeCosemo lokið

28. apríl, 2014

Undanfarna daga höfum við verið svo heppin að njóta leiðsagnar reiðsnillingsins frábæra Peters DeCosemo.  Peter kemur frá Englandi og á frábæran feril að baki sem reiðmaður, reiðkennari og dómari í hestaíþróttum.

Það má segja að það sé fátt sem Peter hefur ekki snert á sem viðkemur hestum, enda var hann eitt sinn kosinn Horseman of the Year í Illinois fylki í Bandaríkjunum, en þann titil geta allir hestamenn unnið sama í hvaða hestaíþróttum þeir eru.  Við gerðum líka margt hérna á þessum fjórum dögum.  Sem dæmi var unnið í stjórnun og ásetu knapans, og gerðar margvíslegar æfingar til að bæta hana.  Svo var að sjálfsögðu notaður mikill tími í að ríða æfingar sem bættu hvern hest eftir því sem hann þurfti helst á að halda.  En okkur finnst einmitt ein af sterkustu hliðum Peters vera hvað hann er ótrúlega hugmyndaríkur í að sérvelja æfingar til að styrkja veikleika hvers hests, eða knapa ef því er að skipta.  T.d. fórum við út á tún og æfðum okkur í að styrkja hestinn á réttum stöðum með því að ríða hægt stökk upp í móti, og notuðum svo niðurleiðina á sérstakan hátt til að styrkja það sama, en í leiðinni til að teygja á öðrum stöðum.  Við létum hestana stökkva yfir hindranir, skoðuðum tölt, gerðum margvíslegar hliðargangsæfingar og svo mætti lengi telja.  

Frábær helgi að baki sem við munum klárlega búa lengi að og hafa mjög gaman að því að vinna úr upplýsingunum og prófa okkur áfram þar til Peter kemur næst í endaðan ágúst.

Á myndinni er Svanhildur að ríða Erni á stökki upp brekkuna.

Frábæru fjögurra daga námskeiði með Peter DeCosemo lokið