Árið endað á frábæru námskeiði með Peter DeCosemo í Holtsmúla

30. desember, 2013

Síðustu þrír dagar hafa verið undirlagðir í námskeiðshaldi, en að þessu sinni voru Svanhildur og Magnús ekki að kenna heldur fengum við snillinginn hann Peter DeCosemo frá Englandi í heimsókn til að kenna okkur, og fengum einkatíma í 3 daga.  Það bættist mikið nýtt í reynslubankann við þetta eins og alltaf þegar Peter kemur að kenna okkur, en við erum búin að fá hann til landsins 4 sinnum á þessu ári og er næsta heimsókn hans þegar niðurnegld í lok febrúar.  Að þessu sinni vorum við mikið að vinna við að styrkja veika hlekki í líkamsbeitingu hestanna, unnum mikið í taumhring og fluttum svo æfingarnar yfir í hnakkinn.  Það var skemmtilegt að vinna með samsetningu æfinga eins og krossgang á feti og brokki og sniðgang.  Svo voru stökkskiptingar skoðaðar og riðið á stökki og er óhætt að segja að bæði hestar og knapar hafi verið orðnir þreyttir í lok námskeiðs.  Nú taka við æfingar við að vinna úr því sem við höfum lært og á meðan hlökkum við til næstu heimsóknar Peters.  

Á myndinni eru Svanhildur og Styrkur bæði einbeitt, bæði beygla vörina þegar þau vanda sig mikið!

Árið endað á frábæru námskeiði með Peter DeCosemo í Holtsmúla